Hermann Björnsson er á sínu þriðja ári sem forstjóri Sjóvár en hann tók við eftir að hópur fjárfesta keypti hlut ríkisins í félaginu. Nú er félagið á leið á hlutabréfamarkað og verður Sjóvá þriðja tryggingafélagið á aðallista Kauphallarinnar.

Þegar litið er yfir síðustu ár í rekstri Sjóvár þá segir Hermann nokkra hluti gera það að verkum að félagið sé tilbúið til að fara inn á markað. Fyrir það fyrsta hafi það reynst félaginu vel að fá inn fjárfesta sem litu á sig sem langtímafjárfesta með þá stefnu að skrá félagið á markað. Sú staðreynd að eigendur hafi ekki greitt sér út arð úr félaginu hafi einnig styrkt grundvöll félagsins. Að auki hefur rekstur félagsins gengið vel að undanförnu og skilað góðum hagnaði. „Allur hagnaður hefur verið nýttur í að styrkja félagið, bæði í fjárfestingarhlutanum og í öllum innviðum.

Viðleitnin hefur verið í þá átt að gera félagið vel í stakk búið til að fara á markað,“ segir Hermann sem telur tryggingafélög henta vel á skráðum markaði þar sem þau séu alla jafn góð arðgreiðslufélög og sveiflur í rekstri séu yfirleitt ekki miklar.

Stærstu aðilar á markaði eru lífeyrissjóðir sem eiga stóran hlut í Sjóvá í dag. Er það slæm tilhugsun að lífeyrissjóðir verði helstu eða jafnvel einu eigendur félagsins?

„Nei, það er í góðu lagi og þeir verða ekki einu eigendurnir. Ég hef til dæmis góða reynslu af lífeyrissjóðum sem fjárfestum frá því ég var í Íslandsbanka á sínum tíma. Um miðjan tíunda áratuginn var það eini bankinn sem var skráður á markað. Hinir tveir bankarnir voru í ríkiseigu. Að uppistöðu til voru það lífeyrissjóðirnir sem áttu þá í bankanum. Það reyndist vel og fyrir vikið mátti segja að bankinn hafi verið í mjög dreifðu eignarhaldi allra sjóðsfélaga. Það finnst mér mjög heilbrigt og gott. Síðar, eða upp úr aldamótum, urðu átök um yfirráð í bankanum og þá var farið að beita lífeyrissjóðum meira í átökunum. Það var ekki heppilegt og hentaði þeim illa. Þeir eiga helst að styðjast við armslengdar sjónarmið og greiða atkvæði með fótunum ef hlutir eru ekki að ganga samkvæmt þeirra væntingum. Að öðru leyti eiga þeir lítið að blanda sér í daglega stjórnun og sérstaklega ekki þegar eignarhald þeirra liggur víða,“ segir Hermann og bendir á að þannig hafi þetta einmitt verið hjá þeim lífeyrissjóðum sem eru á meðal fjárfesta í SF1, félaginusem keypti hlut ríkisins í Sjóvá og inniheldur lífeyrissjóði og aðra fjárfesta.

Ítarlega er rætt við Hermann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .