Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að undirliggjandi vandamál séu í Pírötum sem verði að tala um opinskátt og upphátt. Áhyggjur af því hvernig vald myndast hjá einstaka kjörnum fulltrúum séu lögmætar, jafnvel ef þær hafa verið bornar upp hranalega eða ómálefnalega.

Helgi segir í færslu á Pírataspjallinu að Birgitta Jónsdóttir hafi talað um tiltekinn almennan félagsmann Pírata í gríðarlegum aðstöðumun. Þar hafi fengið að flakka brigsl um óheillindi, misnotkun á kosningakerfi og fleira. Félagsmaðurinn hafi ekki getað varið sig þegar þingmaður vinsælasta stjórnmálaafls landsins tali svona um hann opinberlega.

Helgi segir að tilraun Pírata til þess að vera án formanns hafi verið tilraun til að valdefla hinn almenna félagsmann á kostnað valds að ofan. Það sé sitt mat, eftir að hafa setið á þingi í þrjú ár, að sú tilraun hafi mistekist. Hún hafi ekki leitt af sér raunverulegt leiðtogaleysi, heldur gert það að verkum að leiðtoginn ákvarðast af reynslu, starfsaldri og slíku.

„En myndum við setja í lög okkar að sá reynslumesti eða með hæsta starfsaldurinn ætti að ráða meiru? Varla. Það er hinsvegar raunin sem við búum við í dag. Völdin hverfa ekki við að vera óskilgreind, heldur verður verkun þeirra einungis ógegnsærri. Það væri mun betra að hafa skilgreint lýðræðislegt hlutverk sem gæti dregið okkur þingmenn til ábyrgðar þegar við bregðumst á einhvern hátt, eða stundum einhver óboðleg vinnubrögð eins og þau sem eru rakin hér að ofan,“

segir Helgi og bætir við að Píratar þurfi að fara að ræða hvort ekki þurfi að takmarka vald einmitt með því að skilgreina það. Hann segist ekki myndu bjóða sig fram til formanns Pírata ef flokkurinn myndi ákveða að búa til þá stöðu.

Í færslu á Pírataspjallinu, sem virðast vera viðbrögð við færslu Helga, segist Birgitta vera mannleg og gera mörg mistök. Hún sé þó alltaf tilbúin að leiðrétta mistök sín og mæta gagnrýni.

„Ég er ekki endilega alltaf sammála öllum og finnst gott að við höfum ólíkar skoðanir um mikilvæg mál, það tryggir að við erum alltaf á jaðarbrúninni og erum alltaf vakandi. Það er mér ljúft og skilt að biðja opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver,“

segir Birgitta.