Deila þeirra Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns og Ólafs Haukssonar, sérstaks saksóknara, heldur áfram í Morgunblaðinu í dag.

Reimar birti í Morgunblaðinu um síðustu helgi grein þar sem hann gagnrýndi skort á sjálfstæði sérstaks saksóknara. Máli sínu til stuðnings benti hann á þrjú atriði.

Í fyrsta lagi sagði hann lög um stofnun embættisins hafa falið í sér óeðlileg pólitísk afskipti stjórnmálamanna af málum sem þegar höfðu átt sér stað. Í öðru lagi sagði hann lögin ekki hafa falið í sér tryggingu fyrir sjálfstæði saksóknarans því ráðgert hafi verið að skipan í embættið væri tímabundin. Í þriðja lagi sagði hann fjárveitingar til embættisins hafa verið auknar fordæmislaust á grundvelli hreinna ágiskana um málafjölda og sagði hann sérstakan aksóknara því standa frammi fyrir því að þurfa að rökstyðja fjárausturinn fyrir stjórnmálamönnunum.

Ólafur Hauksson svaraði þessari gagnrýni í viðtali við Ríkisútvarpið sama dag og grein Reimars birtist. Þar hafnaði hann því alfarið að fjárveitingar frá ríkinu settu þrýsting á embættið og benti á að ákæruvald alls staðar á Íslandi sækti fjárheimildir sínar til Alþingis.

Hann útilokaði einnig gagnrýni á skamman skipunartíma og sagðist sjálfur raunar hafa verið fluttur í starfið enda æviráðinn sem sýslumaður á Akranesi. Hann sagði grein Reimars enn eina tilraun verjenda til að sverta trúverðugleika embættisins, enda væri lögmaðurinn einmitt verjandi í nokkrum málum sem embættið rannsakaði. Þá ítrekaði Ólafur að faglega væri unnið að öllum málum innan embættisins.

Reimar svarar Ólafi í grein í Morgunblaðinu í dag og segir svör saksóknara einkennast af útúrsnúningum. Hann vill meina að svörin í heild sinni sýni glögglega þann háska sem embættið sé í varðandi sjálfstæði sitt og réttlætingu tilvistar. Reimar vísar því jafnframt á bug að nokkru máli skipti að hann hafi gætt réttar manna í rannsóknum hjá embættinu og segir það ekkert hafa með efni málsins að gera. Þetta snúist ekki um einstök mál heldur sjálfstæði embættisins í lögum.