Samtök atvinnulífsins segja að Reykjavikurborg kyndi undir verðbólgu með gjaldskrárhækkunum sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpi borgarinnar fyrir næsta ár. Í pistli á vef SA segir að Reykjavíkurborg beri mikla ábyrgð gagnvart þróun verðbólgu á komandi ári. Áform borgarinnar um gjaldskrárhækkanir slái tóninn fyrir önnur sveitarfélög og verði þau að veruleika gangi þau í berhögg við  tilraunir til að koma á efnahagslegum stöðugleika í landinu.

Bendir SA á að skuldir heimilanna séu 2.000 milljarðar króna og þar af séu verðtryggðar skuldir 1.700 milljarðar króna. Áætla megi að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% vegna gjaldskrárhækkana Reykjavíkurborgar, og annarra sveitarfélaga sem sigli í kjölfarið. Þetta hækki verðtryggðar skuldir heimilanna um 2,6 milljarða króna. Sú skuldahækkun nemi 3% af ráðstöfunartekjum heimilanna.

„Áformaðar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar stuðla að áframhaldandi háum verðbólguvæntingum og kunna að gera um sinn að engu tilraunir til þess að koma á stöðugu verðlagi hér á landi. Gjaldskrárhækkanir langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans munu rýra kjör fjölskyldna á tvennan hátt. Minna verður til ráðstöfunar til annarra nauðþurfta og gæða og húsnæðisskuldir hækka umfram það sem annars hefði orðið,“ segir á vef SA.

Þá bendir SA á að það sé allra hagur að halda verðbólgu í skefjum og til mikils að vinna. Samtök atvinnulífsins hafi sýnt fram á að 1% hjöðnun verðbólgu skili  heimilunum fjórfalt meiri ávinningi en 1% launahækkun.

„Með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera er raunhæft að vinna bug á verðbólgunni og bæta þannig lífskjör heimilanna. Til að svo geti orðið verða bæði opinberir og einkaaðilar að halda aftur af hækkun gjaldskráa sinna og verðhækkun á vöru og þjónustu. Reykjavíkurborg gegnir þar lykilhlutverki,“ segir í pistlinum.

Þá segir í pistlinum að meginviðfangsefni komandi viðræðna um gerð kjarasamninga sé að undirbyggja breiða sátt í samfélaginu um að ná tökum á gengi, verðbólgu og vöxtum. Reykjavíkurborg gangi í berhögg gegn þessu viðfangsefni með framkominni fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar sem gert sé ráð fyrir að hækka margs konar þjónustu við fjölskyldur og barnafólk um allt að 10%.

Hér er pistill SA.