Greiningardeild Arion banka segir uppgang Icelandair hafa verið mikinn í gegnum tíðina, þ.á.m. sætaframboð félagsins aukist um 60% síðan árið 2008. Deild bankans er almennt jákvæð á rekstur flugrekstrarfélagsins á næstunni og gerir ráð fyrir 147 milljóna króna rekstrarhagnaði (EBITDA) á næsta ári. Það gera um 12,6% af tekjum.

Í nýju mati sínu á Icelandair Group segir greiningardeildin m.a. í tengslum við flugáætlun fyrir næsta ár sem felur í sér um 18% aukningu á sætaframboði á milli ára og fjölgun farþega um 350 þúsund auk nýrra áfangastaða til Kanada og Sviss. Það er tvöfalt meira en spá deildarinnar hljóðaði upp á. Deildin spáir því að framlegð muni lækka á næstu árum (hækki svo vegna lægri eldsneytiskostnaðar vegna nýrra véla í lok spátímabilsins) og færist nær langtímameðatölum flugfélaga.

Þá segir greiningardeildin að búast megi við afturhvarfi til meðaltalsins þar sem kapítalisminn virkar, gangi ákveðnu félagi vel megi búast við að fleiri félög sæki á sama markað, þ.e. í Ameríkuflugið. Af þeim sökum er virðismat deildarinnar í dollurum og krónum hækkað um 13%. Virðismatið er 13,5 krónur á hlut, sem reyndar er tæplega 10% lægra en seinasta dagslokaverð á bréfum félagsins.

„Við mælum með því að fjárfestar dragi úr eign sinni félaginu þess vegna,“ segir greiningardeild Arion banka.

Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur lækkað um 0,6% í dag og stendur gengi bréfa félagsins í 14,96 krónum á hlut.