Ragnar Hall og Helgi Sigurðsson, hæstaréttarlögmenn, skrifa grein í Fréttablaðið í dag þar sem þeir óska eftir svörum um hvort þáverandi stjórnvöld, sem tóku ákvörðun um að Seðlabankinn veitti Kaupþingi lán upp á 500 milljónir evra þann 6. október 2008, hafi vitað af setningu neyðarlaganna þann sama dag.

Segja lögmennirnir að ljóst hafi verið að enginn íslensku viðskiptabankanna myndi lifa af setningu neyðarlaganna þar sem bankainnstæður voru gerðar að forgangskröfum við skipti, en fram að þeim tíma voru þær almennar kröfur. Slík röskun á hagsmunum kröfuhafa bankanna hafi hlotið að leiða til gjaldfellingar lánasamninga erlendra lánastofnana. Lánið sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi, og nam helmingi gjaldeyrisvarasjóðs landsins, hafi brunnið upp þá um nóttina.

Í því ljósi velta þeir því upp hvort þeir sem hafi tekið ákvörðun um lánveitinguna hafi ekki áttað sig á þeirri verulegu fjártjónshættu sem lánveitingunni fylgdi í ljósi setningar neyðarlaganna. Þá spyrja þeir hvort það geti verið að efni neyðarlaganna hafi komið til tals í „símtalinu fræga“ sem formaður bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra áttu í aðdraganda lánveitingarinnar.