Gagrýni Ólafs Ragnars Grímssonar á forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi er ómakleg að mati Samtaka atvinnulífsins. Stjórn SA sendi frá sér tilkynningu í dag vegna málsins og segja að samtökin hafi undanfarin ár reynt að skapa trúverðugar væntingar svo að fjárfestingar verði meiri hérlendis.

Yfirlýsing stjórnar SA:

„Gagnrýni forseta Íslands á forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi er ómakleg. Samtök atvinnulífsins hafa undanfarin ár reynt að skapa trúverðugar væntingar svo fjárfestingar sem nú eru í algjöru lágmarki verði meiri. Samtökin og aðildarsamtök þeirra hafa í ræðu, riti og á vefjum sínum birt fjölmörg dæmi um jákvæða þróun í einstökum fyrirtækjum.

Þá hafa SA lagt fram margvíslegar tillögur um hvernig unnt sé að komast út úr kreppunni. Í þessu sambandi má nefna tvö rit: Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna og Atvinna fyrir alla, aðgerðaáætlun um uppbyggingu atvinnulífsins .  Við gerð kjarasamninga á þessu ári hefur verið lögð áhersla á að fara ATVINNULEIÐINA og mikilvægi þess að auka framboð vinnu í þjóðfélaginu.

Samtök atvinnulífsins munu í framhaldi af orðum forseta Íslands senda embættinu ofangreind rit ásamt ýmsum upplýsingum öðrum sem gott væri fyrir forseta að kynna sér áður en hann næst gefur yfirlýsingar um málflutning SA.“