Glitnir er nefnt sem eitt af tíu fyrirtækjum sem virðist eiga góða möguleika á að ná miklum árangri innan alþjóðlega orkugeirans. Þetta kemur fram á fjármálavefsíðunni Energy Tech Stocks sem hefur skoðað fyrirtæki sem hafa einstaka möguleika á að hagnast á sérþekkingu sinni í orkuiðnaðinum.

Í greininni er sagt að Glitnir sé leiðandi fyrirtæki á heimsvísu þegar kemur að fjármögnunarverkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku á borð við jarðvarma. Markmið Glitnis er að fjárfesta fyrir einn milljarð Bandaríkjadala í jarðvarma í Bandaríkjunum á næstu fimm árum, auk þess sem stefnt er að frekari fjárfestingaverkefnum í öðrum löndum.

Fram kemur í greininni að Glitnir virðist hafa hafa veðjað á að jarðvarmi muni verða einn helsti valkosturinn við orkugjafa einns og olíu, kol og gas. Sagt er að Bandaríkin sé land tækifæranna fyrir Glitnir, sérstaklega þegar litið er til þeirra möguleika sem eru fyrir hendi við nýtingu endurnýjanlegrar orku úr jarðvarma í Bandaríkjunum og jafnframt gott orðspor Glitnis við að þróa sjálfbærar og umhverfisvænar lausnir á sviði orkumála.

Að lokum er á það bent, að hafi Glitnir rétt fyrir sér um þau fjölmörgu tækifæri sem eru á sviði endurnýjanlegrar orku í Bandaríkjunum, þá eigi fyrirtækið möguleika á því að hagnast gríðarmikið.