*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 9. maí 2018 18:48

Segja gosskatt mismuna

Félag atvinnurekenda bendir á að meiri sykur er í dollu af Hrísmjólk frá MS en gosflösku. Stefnt að 20% verðhækkun gosdrykkja.

Ritstjórn
Verði af hugmyndum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og þingmanns Vinstri grænna myndu allir þessir gosdrykkir fá á sig 20% hækkun óháð sykurmagni.
Höskuldur Marselíusarson

Félag atvinnurekenda segir að skattlagning á gosdrykki eina og sér feli í sér mismunun gagnvart vörum og atvinnugreinum, enda margar aðrar drykkjar- og matvörur sem innihalda sykur.

Þetta kemur fram í samhljóða bréfi sem FA hefur sent bæði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og þingmanns Vinstri grænna, og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Tilefni bréfsins er að heilbrigðisráðherra hefur upplýst að gífurleg hækkun skatta á gosdrykki hafi verið rædd á fundi ríkisstjórnarinnar.

Vilja fimmtungshækkun á verði gosdrykkja

Meðal tillagnanna er að gosdrykkir verði skattlagðir í efra skattþrepi virðisaukaskatts, eða 24%, jafnvel þó séu matvara sem sé í neðra þrepinu, eða 11%. Einnig að vörugjöld verði lögð á svo að verðhækkunin nemi að minnsta kosti fimmtungi.

Er þar vísað í tillögur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en meðal tillagnanna er að í staðinn verði svokallaðar álögur á grænmeti og ávexti lækkaðar.

Meiri sykur í vöru frá MS en godrykk

Í gagnrýni sinni á tillögurnar bendir FA á að margar aðrar drykkjar- og matvörur séu ekki síðri uppspretta sykurs en gosdrykkir. Þannig er tekið sem dæmi að 33 grömm séu af sykri í 330 ml dós af algengum gosdrykk en 44 grömm af sykri í dós af Hrísmjólk frá MS.

Þá bendir FA á að tölur Landlæknisembættisins um hlutfall sykurneyslu landsmanna sem rekja má til gosdrykkja séu rangar og geti ekki verið grundvöllur ákvarðana um nýja skatta.

Að sama skapi myndi þetta þýða að snúið verði aftur af braut í átt að einfaldara skattkerfi sem að hefur verið stemmt síðustu ár, sem myndi valda kostnaði fyrir smásala og heildsala, gera skattlagninguna ógagnsærri og valda óhagræði.

Þróunin þegar í átt til minni gosdrykkjaneyslu

Jafnframt er bent á hraða þróun í átt til neyslu ósykraðra vatnsdrykkja, sem á sér stað án skattlagningar eða annarra inngripa stjórnvalda. Þannig sýna gögn að markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja hefur lækkað úr 51% í 46%.

Að teknu tilliti til stækkandi markaðar þýðir það að neysla á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað um 12% og neysla ósætra drykkja um 3%, meðan neysla á kolsýrðu vatni hefur aukist um 34%.