*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 14. febrúar 2011 15:45

Segja hlut Straums í West Ham til sölu

35% hlutur Straums í knattspyrnuklúbbnum West Ham er sagður vera til sölu fyrir um 40 milljónir punda.

Ritstjórn
David Sullivan og David Gold.

Hlutur Straums í enska knattspyrnuklúbbnum West Ham er til sölu. Verðmiðinn á 35% hlutnum er um 40 milljónir punda, jafnvirði um 7,5 milljarða króna.

Þetta hefur vefmiðillinn ESPNsoccernet eftir heimildarmönnum. Núverandi eigendur félagsins, David Gold og David Sullivan, halda hvor um sig um 31% í félaginu og segir í frétt ESPNsoccernet að áhugi sé fyrir því að einn stór fjárfestir eða margir minni kaupi hlut Straums. Sullivan og Gold halda um forkaupsrétt á hlut Straums sem tók gildi við kaup þeirra á félaginu í janúar 2010. Forkaupsrétturinn gildir í þrjú ár.

Þá kemur fram að búist sé við að virði félagsins hækki mikið á næstu árum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að West Ham mun leika á Ólympíuleikvanginum í London frá og með tímabilinu 2014-2015. Heimildarmaður miðilsins innan West Ham segir að um sé að ræða einstakt tækifæri til að kaupa 35% hlut fyrir um 35-40 milljónir punda. Mögulegt sé að virði klúbbsins fari frá því að vera um 100 milljónir punda í 500-700 milljónir punda á næstu fimm árum.

Stikkorð: Straumur West Ham