*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 4. september 2014 17:05

Segja hluthafa MP banka vilja selja sig út

MP Banki er metinn á 1,5 til 3 milljarða króna. Hluthafar bankans vilja að virði sé meira.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

MP banki er metinn á milli 1,5 til þrjá milljarða króna eða sem nemur 0,3 til 0,6 sinnum eigið fé hans. Eigið féð nam í lok síðasta árs rúmum fimm milljörðum króna. Fram kemur í netritinu Kjarnanum í dag að miðað við verðmatið á bankanum sé ólíklegt að hluthafar bankans sem lögðu honum til eigið féð muni endurheimta það að fullu við sölu á bankanum. Í Kjarnanum segir að nokkrir hluthafar bankans hafi sóst eftir því að undanförnu að selja hluti sína í bankanum.

Í ritinu er m.a. fjallað um óformlegar sameiningarviðræður MP banka við Virðingu sem hafa staðið yfir frá í sumar. Þar segir að mismunandi hugmyndir séu uppi um verðmatið á MP banka. Hluthafar bankans vilja að það sé hærra metið en hluthafar Virðingar að það verði metið minna. Í sumar var opið svonefnt gagnaherbergi þar sem fjárfestar gátu kynnt sér gögn um innviði MP banka með fjárfestingu í huga. 

Dregur úr tapinu

Eins og fram kom í uppgjöri MP banka sem birt var í dag þá nam tap hans á fyrstu sex mánuðum ársins 159 milljónum króna. Það var talsvert betri afkoma en á seinni hluta síðasta árs þegar það nam tæpum einum milljarði króna. 

Helstu hluthafar MP banka eru félagið Manastur Holding BV, sem er í eigu Joseph C. Lewis. Það átti í janúar 9,99% hlut í bankanum. Þar á eftir kom félagið Títan B, félag í eigu Skúla Mogensen, með 9,91% hlut. Þá á Lífeyrissjóður verzlunarmanna 9,74% hlut í MP banka, Linley Limited, sem Rowland-fjölskyldan á, er með 9,54% hlut og félagið Mizar ehf, sem Guðmundur Jónsson, kenndur við Sjólaskip, á. Aðrir á lista yfir 10 stærstu hluthafa MP banka eru Fjárfestingarsjóðurinn Norðurljós, Tryggingamiðstöðin, Eignasafn Seðlabanka Íslands, Klakki og félagið MP Canada Iceland Ventures Inc.

Stikkorð: Skúli Mogensen MP banki