Viðskiptaráð veltir því upp hvort ríkið standi í vegi fyrir bættum námsárangri nemenda með því að standa sjálfstæðri útgáfu námsgagna fyrir þrifum.

Bendir ráðið á í umfjöllun sinni að á markaði útgáfu fyrir nemendur í grunn- og gagnfræðiskólum sé ríkið langstærsti útgefandinn í gegnum Menntamálastofnun, sem áður hét Námsgagnastofnun.

Rétt rúmlega ellefuhundruð krónur á nemenda

Þó segir ráðið að tekin hafi verið skref í rétta átt árið 2007 með stofnun Námsgagnasjóðs, sem eigi að leggja grunnskólum fé til námskaupa umfram þau gögn sem fást frá Menntamálastofnun.

Samt sem áður hafi það skref verið lítið, því umfang sjóðsins árið 2015 sé enn rétt rúmlega 50 milljónir króna til allra grunnskóla landsins, eða 1.143 krónur á hvern grunnskólanema.

Sambærilegt við ríkiseinokun

Þetta mikla samkeppnisforskot stofnunarinnar gagnvart öðrum útgefendum á þessum markaði sé því það mikið að útkoman sé sambærileg og ef um ríkiseinokun væri að ræða, sem standi í veg fyrir framþróun á sviði námsgagna.

Það sé því steinn í götu bættrar kennslu og námsárangurs íslenskra barna, sem ráðið bendir á að hafi dregist hratt aftur úr nemendum annarra Norðurlanda í samræmdum könnunum PISA, þar sem þeir mældust lægstir allra á Norðurlöndunum.

Færeyjar og Ísland einu undantekningar

Bendir ráðið á að í flestum samanburðarlöndum okkar sé Ísland sér á báti með svona mikilli miðstýringu, þó öll þessi lönd, bæði Norðurlöndin og lönd Vestur-Evrópu, hafi að leiðarljósi markmið um jafnrétti til náms og aðgengi að ókeypis námsgögnum fyrir nemendur.

Eina undantekningin séu Færeyjar, en þar hafi bókaútgefendur hreinlega ekki treyst sér til að standa í slíkri útgáfu, meðan íslenskir bókaútgefendur hafi þvert á móti gagnrýnt núverandi fyrirkomulag.

Kennarar vilja aukið framboð

Jafnframt sé ljóst að kennarar vilja aukið framboð, en í könnun meðal kennara, skólastjórnenda og bókaútgefenda, frá árinu 2005, kom í ljós að 94% aðspurðra töldu mjög eða frekar mikilvægt að framboð og val á námsefni yrði aukið og 81% sögðu það sama um að endurnýja þyrfti námsefni.

Jafnframt kom þar fram að 80% kennara notuðu eigin efni og 52% efni frá öðrum kennurum, en á sama tíma sögðu allir útgefendur sem rætt var við að þeir væru tilbúni að taka þátt í námsbókamarkaði fyrir grunnskóla, enda standi þeir nú flestir þegar að útgáfu námsbóka fyrir framhaldsskólastigið.

Einskorði sig við eftirlit

Vill ráðið að Námsgagnasjóður sjái um úthlutun á öllu því fjármagni sem grunnskólar þurfi til námsgagnakaupa, sem hefðu svo val um hvernig þeir myndu ráðstafa úthlutuðu fjármagni eins og þeir telji nemendum sé fyrir bestu.

Eina hlutverk Menntamálastofnunar ætti hins vegar að vera að hafa eftirlit með því að námsgögn myndu uppfylla kröfur úr aðalnámskrá.