„Það eru skiptar skoðanir innan bankageirans hvort gjöldin séu nægilega há til að standa undir endurnýjun og þróun kerfisins. Svo er þetta hins vegar alltaf spurning um það hvað hægt er að krefja fólk um. En það er sjónarmið í bankakerfinu að raunkostnaður sé ekki rukkaður,“ segir Helgi Teitur Helgason, viðskiptastjóri Landsbankans, í samtali við Morgunblaðið.

Tekjur af þjónustugjöldum þriggja stærstu viðskiptabankanna voru 15,1 milljarður króna á fyrri hluta ársins. Allt síðasta ár voru tekjurnar 27 milljarðar króna. Stærstur hluti teknanna er vegna greiðslukortaviðskipta.

Helgi Teitur segir hins vegar að tekjurnar séu bókfærðar beint í „vasa“ bankanna í ársreikningum en í raun séu þær nýttar til uppihalds og þróunar á tölvukerfum. „Svo er inni í þessu fjárfesting í nýjum tækjum. Það er greitt með þessu. Sú fjárfesting á sér stað yfir lengri tíma.“