Stjórnendur fjárfestingabankans Goldman Sachs horfa nú fram á þurfa að greiða himinháa sekt í kjölfar fimm mánaða rannsóknar breskra stjórnvalda á starfsemi bankans. Var rannsókninni hrint í framkvæmd eftir að bankinn hafði verið ákærður fyrir blekkingar í Bandaríkjunum sem endaði með sátt og sektargreiðslu. Þurfti Goldman Sachs að greiða 550 milljónir Bandaríkjadala. Samkvæmt frétt Financial Times er gert ráð fyrir að sektin í Bretlandi verði sú hæsta sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki þar í landi.

Breska fjármálaeftirlitið hóf rannsóknina í apríl síðastliðnum eftir að bandaríska eftirlitið hafði ákært Goldman Sachs fyrir að afvegaleiða fjárfesta þegar bankinn gaf út flókna skuldabréfavafninga, samsetta úr fasteignalánum, sem kölluðust Abacus. Bandaríska fjármálaeftirlitið hélt því fram að Goldman hefði ekki upplýst að vogunarsjóður veðjaði á greiðslufall sumra fasteignalánanna sem skuldabréfavafningurinn var samansettur úr. Kemur fram í fréttinni að fjárfestar töpuðu allt að einum milljarði dala á því að kaupa skuldabréfin.

Hæsta sekt sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki í Bretlandi hingað til fékk JP Morgan fyrir þremur mánuðum. Þá þurfti fyrirtækið að greiða 33,3 milljónir punda í sekt þar sem því láðist að geyma fjármuni viðskiptavina á aðskildum reikningum. Orðspor Goldman Sachs hefur beðið alvarlega hnekki síðustu mánuði í kjölfar vangaveltna yfir því hvort viðskiptavinum hafi verið mismunað þannig að hagsmunir sumra voru varðir á kostnað hinna.