Apple hefur verið sektað um 6,5 milljónir dollara af áströlskum yfirvöldum. Sektin kemur til vegna þess að fyrirtækið neitaði að gera við iPhone síma og iPad spjaldtölvur viðskiptavina sem höfðu farið í viðgerð hjá þriðja aðila.

Fyrirtækið játar að hafa gefið 275 viðskiptavinum sínum misvísandi upplýsingar varðandi rétt þeirra á viðgerð og útskiptum á símunum og spjaldtölvunum. Allir þessir viðskiptavinir höfðu leitað til Apple með tækin sín vegna galla sem gerði tækin ónothæf eftir að þau uppfærðu stýrikerfi tækjanna.

Apple neitaði þessum viðskiptavinum um viðgerð á tækjunum, þar sem að viðskiptavinirnir höfðu fengið þriðja aðila til þess að gera við aðra hluti í tækjunum sem tengdust þessum galla ekki, eins og til dæmis viðgerð á brotnum skjá.

Dómstólar í Ástralíu hefa komist að þeirri niðurstöðu að Apple hafi með þessu brotið neytendalög.