Það er forgangsatriði Seðlabanka Íslands að styrkja við krónuna og því verða gjaldeyrishöftin ekki afnumin fyrr en á næsta ári. Stýrivaxtalækkanir bankans munu taka mið af þessu.

Þetta sagði Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri í samtali við Dow Jones fréttaveituna nú um helgina.

Þá sagði Øygard að Ísland gæti að öllum líkindum uppfyllt skilyrði fyrir upptöku evru eftir fjögur ár en þó væri ekki útilokað að auka aftur tiltrú á íslensku krónunni.

„Það þarf að halda gjaldeyrishöftunum við í einhvern tíma,“ sagði Øygard í samtali við Dow Jones. Það kæmi til vegna þess hversu lítið hagkerfið er hér á Íslandi auk þess sem einkageirinn væri viðkvæmur fyrir miklum gjaldeyrissviptingum. Hann viðurkenndi þó að það væri ekki óskastaðan að halda uppi gjaldeyrishöftum en bætti við að þau yrðu afnumin hægt og rólega eftir því sem meiri stöðugleiki myndaðist.

Þó til standi að aflétta gjaldeyrishöftunum á næsta ári vildi Øygard ekki gefa upp nákvæma tímasetningu og sagði það velta á því hver vel tækist við stjórn efnahagsmála á næstunni.

Eins og kunnugt er lækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína  um 250 punkta nú í maí, úr 15,5% í 13% en þá hefur bankinn lækkað stýrivexti um 5 prósentustig frá því í mars, úr 18%.

Með lækkandi stýrivöxtum eykst þó möguleikinn á frekari veikingu krónunnar. Øygard segir að helsta forgangsverkefni peningastefnunefndar Seðlabankans sé að viðhalda stöðugeika þó svo að nefndin  muni hafa það að leiðarljósi að lækka stýrivexti. Hann bætti því við að gengi krónunnar hefði verið nokkuð stöðugt síðustu vikur og þá hefði krónan líka haldið stöðugleika á millibankamörkuðum.

„Við töldum að aðstæður væru réttar til að lækka vexti og með viðeigandi skilyrðum teljum við að það ferli geti haldið áfram í júní,“ sagði Øygard í samtali við Dow Jones.

Fljótandi króna eða evra

Eins og kunnugt er hefur krónan hríðfallið síðasta árið en samkvæmt viðtalinu við Øygard hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra óskað eftir því að Seðlabankinn geri úttekt um hvaða möguleikar séu í boði til að koma á stöðugleika í gjaldeyrismálum.

Øygard sagði í samtali við Dow Jones að valið standi á milli þess að koma krónunni á flot á ný eða taka upp evru – og bætti því við að líklega geti Íslendingar samið um upptöku evru innan fjögurra ára. Þá sagði Øygard að einnig væru skoðaðir möguleikar á því að taka upp Bandaríkjadal eða norska krónu.

„Lykilspurningin er þessi; hjálpar krónan okkur að komast yfir erfiðasta hjallann eða er hún valdur að frekari óstöðugleika,“ sagði Øygard og bætti því við sem fyrr segir að ekki sé útilokað að mynda tiltrú á krónunni á ný.