Mervyn King, seðlabankastjóri Englandsbanka, varð undir í atkvæðagreiðslu nefndar um peningamálastefnu bankans í fyrsta skipti í meira en tvö ár, þegar meirihluti nefndarinnar ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,5% fyrr í þessum mánuði. Þetta kemur fram í breskum fjölmiðlum í gær eftir að fundargerð nefndarinnar var gerð opinber. Telja greiningaraðilar að þessar óvæntu fréttir auki verulega líkurnar á því að Englandsbanki muni hækka stýrivexti fyrr en búist hafði verið við - jafnvel strax í næsta mánuði - auk þess sem mun meiri hætta er á því að þeir verði orðnir sex prósent í árslok.

King var einn af fjórum nefndarmönnum sem var hlynntur því að hækka stýrivexti í 5,75% en fimm manna meirihluti kom hins vegar í veg fyrir þá ákvörðun, sem hefði þýtt fimmtu stýrivaxtahækkun bankans frá því í ágústmánuði síðastliðnum.

Howard Archer, hagfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Global Insight, segir í samtali við breska dagblaðið Daily Telegraph að það sé mjög sennilegt að stýrivextir bankans verði hækkaðir í 5,75% í næsta mánuði, sökum þess hversu naumur meirihluti hefði verið fyrir því að viðhalda óbreyttum vöxtum. Jafnframt bendir Archer á það að ef rýnt er í fundargerð nefndarinnar komi bersýnilega í ljós að þrátt fyrir ákvörðun meirihlutans um að halda stýrivöxtum óbreyttum um sinn, telji nefndarmennirnir fimm að það sé aðeins spurning um hvenær sé rétt að vextir verði hækkaðir, fremur en hvort.