Seðlabanki Sviss hefur lækkað stýrivexti um 0,5% og hafa þeir nú ekki verið lægri í fjögur ár. Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu.

Vaxtalækkunin kemur í kjölfar þess að búist er við samdrætti í Sviss, sem gæti orðið sá versti frá því árið 1982.

Í fréttatilkynningu frá seðlabankanum segir:

,,Aðstæður á alþjóðlegum mörkuðum hafa farið versnandi á síðustu mánuðum. Samdráttur hefur orðið í Bandaríkjunum og Evrópu, og einnig hefur dregið úr vexti í Asíu. Staðan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur einnig versnað frá því í september. Þessi þróun mun hafa mikil áhrif á hagkerfi Sviss. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur verði neikvæður á næsta ári, um 0,5-1%."