Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að auka bilið á milli hæstu og lægstu vaxta bankans.

Vextir á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum verða lækkaðir úr 17,5% í 15% (21. desember n.k.), vextir á daglánum hækkaðir úr 20% í 22% (18. desember) og vextir innstæðubréfa og bundinna innlána lækkaðir úr 17,75% í 15,25% (29. desember).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Þar kemur fram að þessi aðgerð felur ekki í sér breytingu á peningastefnu bankans og stýrivextir bankans verða óbreyttir, 18%.

„Vaxtabreytingunum er hins vegar ætlað að stuðla að auknum viðskiptum á millibankamarkaði með krónur,“ segir í tilkynningunni.