Seðlabankinn var hlynntur því, fyrir sitt leyti, að bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi í haust en slíkt kom til álita eftir að þrengja fór um á fjármálamörkuðum.

Þetta kemur fram í erindi Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra um aðdraganda bankahrunsins í október en erindið er birt á vef Seðlabankans í dag.

Ingimundur segir að bankarnir hafi brugðist við þrengingum á mörkuðum með ýmsum hætti. Þannig hafi Kaupþing hætt við kaup á hollenska bankanum NIBC, allir bankarnir hafi selt eignir og hætt starfssemi af ýmsu tagi.

Þá hafi bankarnir einnig dregið úr útlánum og fækkað starfsfólki.

„Á fundum með forsvarsmönnum bankanna sl. sumar kom m.a. fram að á vegum sumra væri unnið af kappi að því að laða erlenda fjárfesta að bönkunum, að stefnt væri að því að koma innlánum í erlendum útibúum í erlend dótturfélög innan nokkurra mánaða og að jafnvel kæmi til álita að flytja höfuðstöðvar til útlanda,“ segir í erindi Ingimundar.

„Seðlabankinn var hlynntur því fyrir sitt leyti.“