Sérfræðingar á markaði eru sammála um að viðskipti með krónuna séu með daufara móti þessa dagana hér á landi, og það kemur nokkuð á óvart að hún hafi ekkert braggast að nýju, nú þegar vaxtagjalddaginn stóri er frá og stýrivextir voru ekki lækkaðir meira en raun bar vitni. Það bendir í öllu falli ekki til þess að Seðlabankinn beiti inngripum nú, öfugt við janúar og febrúar.   Einhver viðskipti eru enn erlendis með krónuna þótt svo virðist sem dregið hafi úr þeim um svipað leyti og Straumur fór í þrot. Samkvæmt upplýsingum frá Reuter og gjaldmiðlaborðum erlendis má ætla að gengi krossins evrur/íslenskra krónur  sé u.þ.b. 50-60% hærra erlendis en hér á landi og fást þannig 230-250 kr. fyrir evruna úti.

Þessi mikli munur á innlendu og erlendu gengi túlka margir sem vísbendingu um að erfitt sé að fara á svig við reglur Seðlabankans, enda væru geysileg högnunartækifæri fólgin í því að komast með fjármuni á milli markaðanna tveggja.