Vörður tryggingar hefur að sögn forstjóra fyrirtækisins sótt í sig veðrið á undanförnum misserum. „Það er búið að ganga mjög vel hjá félaginu undanfarin ár. Það hefur verið samfelld styrking og ánægjuleg vegferð, ár frá ári. Ég er búinn að vera hérna í tíu ár og maður getur nánast sagt að þetta hafi verið ánægjuleg uppbyggingarstarfsemi allan þennan tíma. Það má líka segja að það sem stendur svolítið upp úr er að félagið fór í söluferli árið 2015 og Arion fékk það loksins afhent í lok september 2016. Þetta var átján mánaða meðganga, frá því að salan komst í umræðuna og þangað til félagið var afhent,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar.

„Staða félagsins á markaði hefur styrkst mjög mikið á síð­ ustu árum. Við erum komin með fína stöðu á einstaklingsmarkaði og fyrirtækjamarkaðnum sömuleiðis, en við erum ekki með eins sterka markaðshlutdeild þar, enda var mesta áherslan lögð á einstaklingsmarkaðinn fyrstu árin,“ bætir hann við.

Ekki miklar sýnilegar breytingar

Guðmundur er á því að breytingarnar hvernig aðilar tryggi sig séu ekki ýkja miklar. „Þetta er frekar stöðugur markaður og það gildir um einstaklings- og fyrirtækjahliðina. Það hafa ekki orðið miklar sýnilegar breytingar. Þegar þessar þrengingar voru í efnahagslífinu, var fólk meira að segja upp tryggingum og spara útgjöldin. Þetta átti við fyrirtækin líka, rekstur fyrirtækja dróst saman og þá var minni tryggingaþörf,“ segir Guðmundur

„Svo fara fyrirtæki að fjárfesta í lausafé, fasteignum og fjölga fólki og við sem erum með heimili förum að kaupa nýja bíla og annað. Þörfin breytist því. Við segjum oft sem vinnum í þessum bransa að þetta sé meira seld vara en keypt. Þetta er ekki mikil eftirspurnarvara. Við eigum erfitt með að fá fólk til að sitja heima á kvöldin og segja: Ég þarf að yfirfara tryggingarnar mínar. Við þurfum svolítið að halda þessu að fólki í formi ráðgjafar og upplýsinga til að fólk kveiki á perunni. Grundvallaratriði hvernig einstaklingar og fyrirtæki hafa tryggt sig hafa þó ekki breyst,“ tekur hann fram.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Lífeyrir & tryggingar . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .