Fjárfestar undir forystu Birgis Þórs Bieltvedt keypti fyrirtækið Pizza-pizza ehf. af Hömlum ehf., dótturfélagi Landsbankans. Pizza-pizza er umboðsaðili Domino's Pizza International á Íslandi. Kaupverðið er 210 milljónir króna en að auki nema vaxtarberandi skuldir fyrirtækisins 350 milljónum króna. Séu skuldir reiknaðar með í kaupunum þá er heildarkaupverð 560 milljónir króna.

Birgir Þór stofnaði Pizza-pizza ehf. árið 1993 og kom að rekstri þess til ársins 2005. Árið 2005 var heildarverðmæti fyrirtækisins 1.100 milljónir króna. Í samtali við Stöð 2 sagði Birgir Þór að hann hafi selt fyrirtækið með hagnaði árið 2005 og fjárhæðin 1.100 milljónir væri nærri lagi sem söluverð. Birgir Þór er því að kaupa fyrirtækið aftur á um helming af söluverði 2005.

Í fréttartilkynningu um kaupin kveðst Birgir Þór vera spenntur fyrir því að takast að nýju á við verkefnið og segir að til standi að innleiða ýmsar nýjungar sem koma til með að styrkja félagið enn frekar og gera Domino's að leiðandi vörumerki á sínu sviði.