Móðurfélag bandaríska rafbílaframleiðandans CODA fór fram á greiðslustöðvun í samræmi við bandarísk gjaldþrotalög í síðustu viku. Fyrirtækið var stofnað í Kaliforníu í Bandaríkjunum árið 2009. Fyrirtækið framleiddi fjölskyldubíl undir sama heiti sem knúinn var með rafhlöðu og gat ekið 142 kílómetra á einni hleðslu. Það er nokkuð undir getu annarra rafbíla, s.s. frá Tesla. Fyrsti bíll fyrirtækisins kom á markað í mars í fyrra. Salan var langt undir væntingum og lenti fyrirtækið fljótlega í vandræðum.

Fram kemur í umfjöllun AP-fréttastofunnar af málinu að fyrirtækið hafi aðeins selt um 100 bíla frá í fyrra. Nú sé vonast til þess að lánardrottnar taki reksturinn yfir.