Leigufélagið Heimavellir högnuðust um 1.360 milljónir króna á árinu 2019 og jókst hagnaður félagsins um ríflega 1,3 milljarða frá fyrra ári. Leigutekjur námu tæplega 3,4 milljörðum króna á árinu og drógust saman um 9% en hreinar leigutekjur námu rúmlega 2,4 milljörðum og drógust saman einnig saman um 9%.

Rekstararhagnaður fyrir matsbreytingu (EBIT) nam 2.051 milljón króna og dróst saman um 9% milli ára. Rekstrarhagnaður nam 4.158 milljónum og jókst um 46% en söluhagnaður fjárfestingareigna nam 412 milljónum og dróst saman um 84 milljónir á meðan matsbreytingar fjárfestingareigna námu tæplega 1,7 milljörðum og jukust um tæplega 1,6 milljarða milli ára. Þá námu fjármagnsgjöld ársins 2,5 milljörðum og lækkuðu um 11% milli ára.

Eignir félagsins námu tæplega 54 milljörðum króna í árslok og lækkuðu um rúmlega 2,8 milljarða milli ára. Þar af nam bókfært virði fjárfestingareigna 45,3 milljörðum og lækkaði um 7,8 milljarða milli ára.  Fram kemur í tilkynningu vegna uppgjörsins að 369 íbúðir hafi verið seldar á árinu fyrir 11,4 milljarða króna en söluverð þeirra var um 3,7% yfir bókfærðu virði þeirra. Á sama tíma keypti félagið 114 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðum fækkaði úr 1.892 í 1.637.

Vaxtaberandi skuldir námu 29 milljörðum í lok ársins og lækkuðu um 5,7 milljarða milli ára. Eiginfjárhlutfall var 37,2% í lok ársins og hækkaði um 4,2 prósentustig á milli ára.

Á árinu 2020 gera stjórnendur Heimavalla ráð fyrir að leigutekjur verið á bilinu 3-3,1 milljarður króna og að EBIT framlegð verði á bilinu 62,5-63,5%. Þá er gert ráð fyrir að halda áfram að fækka íbúðum og að þær verði um 1.500 í árslok 2020. Auk þess stefnir félagið á að ná 5% EBITDA ávöxtun á fjórða ársfjórðungi þessa árs.