Bandaríski samskiptamiðillinn vinsæli Snapchat hyggst nú afla sér tekna með því að selja notendum aðgang að svokölluðum geofilterum. Fyrir litla 5 Bandaríkjadali geta notendur því sett upp sinn eigin filter yfir ákveðið svæði innan ákveðins tímaramma.

Geofilter virkar þannig að þegar notandinn er á ákveðnu svæði getur hann dregið myndræna grafík yfir snappið sem hann tók og þannig lífgað upp á það. Til að mynda eru til geofilterar fyrir Reykjavíkurborg, New York og jafnvel Breiðholt.

Einkanotafilterarnir geta verið virkir í allt að 30 daga og haft allt að hálfs ferkílómeters svæðisflatarmál. Notandinn hannar þá grafíkina sjálfur og sendir inn á vefsíðu Snapchat, og einum virkum degi síðar ætti filterinn að vera samþykktur og nothæfur.

Eins og stendur eru filterarnir aðeins fáanlegir í Bandaríkjunum og Bretlandi. Líklegt er þó að Snapchat muni víkka við þjónustuna, þar eð hún gæti reynst fyrirtækinu verðmæt tekjulind.