Fyrirtækið Blámar hefur gert samning við AEON, stærstu verslunarkeðju í Asíu. AEON er risavaxið fyrirtæki með um 360 þúsund starfsmenn og höfuðstöðvar í Japan. Um síðustu helgi fór fyrsta sending Blámar í verslanir AEON í Hong Kong og er Blámar þar með fyrsta íslenska fyrirtækið til að selja vörur sínar á þeim markaði. Blámar hefur einnig samið við verslunarkeðjuna COOP um dreifingu á vörum sínum í Skandinavíu.

Blámar er ungt fyrirtæki. Það var stofnað árið 2011 og var fyrst með höfuðstöðvar sínar og vinnslu í Njarðvík. Í fyrra keyptu þau Pálmi Jónsson og Valdís Fjölnisdóttir fyrirtækið og samhliða áherslubreytingum fluttu þau starfsemi þess í Kópavoginn. Þau Pálmi og Valdís eru bæði ný í þessum geira. Valdís rak áður fjárfestinga- og fasteignafélagið Þórsgarð og Pálmi rak ferðaskrifstofuna Nordic Visitor.

„Fyrstu árin var Blámar aðeins að selja frosinn fisk í verslanir hér heima en eftir að við keyptum fyrirtækið fórum við í algjöra endurskipulagningu á rekstrinum," segir Valdís. „Við byrjuðum á að kaupa nýja pakkningarvél frá Multivac í Þýskalandi, sem pakkar fiskinum í svokallaðar „skin pack" umbúðir. Þessar vélar hafa mikið verið notaðar til að pakka inn kjöti en mér skilst að við séum þau fyrstu sem byrja að pakka fiski inn með þessum hætti."

Spurð hvernig Blámar hafi komist í samband við AEON í Asíu svarar Valdís: „Það er svolítið gaman að segja frá því að þeir komu auga á okkar vöru í Hagkaup. Það sem þeim fannst heillandi voru einmitt þessar handhægu pakkningar okkar. Þetta er ekki eina skiptið sem þetta hefur gerst. Það hafa ótrúlega margir komið auga á okkar vörur í Hagkaup og haft samband við okkur í framhaldinu."

Í 80 Irma-verslanir

Auk þess að semja við AEON hefur Blámar gert samning við COOP í Skandinavíu um dreifingu á vörum fyrirtækisins þar.

„Þessi samningur er mjög mikilvægur fyrir okkur. COOP er í raun heildsalinn sem dreifir okkur vörum í verslanir. Næst á dagskrá er að senda frosinn fisk, sem verður seldur í verslunum Irma í Danmörku og mun COOP sem sagt dreifa þeim í þessar verslanir. Stefnan er sú að í lok nóvember verði Blámar komið í kæla allt að áttatíu Irma-verslana."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .