Viðbrögð stjórnmálaleiðtoga við kosningu Trump hafa verið nokkuð misjöfn. Margir hafa þó óskað Trump til hamingju með kosninguna, þar á meðal Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og Sigurður Ingi Jóhannesson, forsætisráðherra Íslands.

Sigurður Ingi sendi Trump heillaóskir með forsetaembættið og telur hann jafnframt að samskipti Íslands og Bandaríkjanna haldi áfram að vera góð. Þó hafi niðurstöðurnar komið forsætisráðherranum nokkuð á óvart. Sigurður Ingi hefur ekki áhyggjur af kosningu Trump.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sendi Trump sömuleiðis skeyti, þar sem að hún óskaði Donald Trump til hamingju með kosninguna og vonaðist hún eftir því að „sérstakt samband“ Bandaríkjanna og Bretlands væri áfram í hávegum höfð og að löndin tvö héldu áfram að tengjast vinaböndum.

Haft er eftir Vladimir Putin, forseta Rússlands, í grein Russia Today (RT ), að Rússar væru spenntir yfir tilhugsuninni um að bæta samskipti ríkjanna tveggja í kjölfar kosningar Trump í forsetaembættið. Hann lagði jafnframt áherslu á að það væri ekki sök Rússlands að samskiptin milli ríkjanna tveggja væru eins slæm og raun ber vitni.