Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) mun á miðvikudaginn koma til Egyptalands til að hefja viðræður við þarlend stjórnvöld um neyðarlán upp á 4,8 milljarða Bandaríkjadali.

Síðustu tvö ár hafa reynst Egyptum erfið og nú er svo komið að gjaldeyrisforði landsins er svo gott sem uppurinn samkvæmt frétt Reuters um málið. Því hafa stjórnvöld í landinu óskað eftir láni frá AGS. Þá kemur einnig fram í frétt Reuters að búast megi við miklum fjárlagahalla í ár.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld í Egyptalandi óska eftir aðstoð AGS því í nóvember sl. kom sendinefnd til landsins eftir að stjórnvöld höfðu óskað eftir lánveitingu en þeim umræðum var frestað vegna þess óróleika sem myndaðist í landinu í desember sl. þegar miklar deilur urðu í kjölfr þess að Mohamed Mursi, forseti Egyptalands, lagði fram lagafrumvarp í þeim tilgangi að lengja valdatíð hans til muna.