*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 15. maí 2013 08:09

Sér ekki bólu á eignamarkaði

Gylfi Magnússon segir mikið sparifé í umferð og eðlilega slegist um fáa fjárfestingarkosti á meðan höft vari og vextir eru lágir.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Ekki er skrýtið að slegist sé hér á landi um þá fjárfestingarkosti sem eru í boði, að mati Gylfa Magnússonar, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir mikið framboð á sparifé á sama tíma og höft hamla fjárfestingum. Fjallað er um þróunina á hluta- og skuldabréfamarkaði í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti. Gylfi segir tölurnar sýna að gríðarlegt framboð sé á sparifé. Lífeyrissjóðirnir fái á annað hundrað milljarða af nýju fé á hverju ári, það er að segja iðgjöld umfram lífeyrisgreiðslur, auk vel á annað hundrað milljarða í banka sem þeir hafi ekki fundið neina framtíðarfjárfestingu fyrir. Við það bætist svo allt það fé sem hér er fast vegna gjaldeyrishafta.

Gylfi segir stöðuna endurspeglast m.a. í lágum vöxtum á skuldabréfamarkaði og nær örugglega eitthvað hærra verði á hlutabréfamarkaði en væri ef hér væru ekki við lýði gjaldeyrishöft.

Hann telur þó of snemmt að tala um bólu á markaðnum. „Verð á hlutabréfum hefur ekki hækkað það mikið að skýr merki megi sjá um slíkt, en auðvitað er það hættan,“ segir hann og vísar til þess að víðar en hér hafi menn áhyggjur af óeðlilegri verðmyndun á hlutabréfamörkuðum.