Stærsta veitingahúsakeðja á Íslandi fagnaði fyrir skömmu 15 ára afmæli sínu á Íslandi en að sögn Skúla Gunnars Sigurðssonar, eiganda Subway á Íslandi, eru áform um að útvíkka enn frekar starfsemi félagsins og opna fleiri staði. Skúli og fjölskylda eiga og reka Subway en staðirnir eru nú orðnir 18 á Íslandi en að sögn Skúla er vel mögulegt að þeir verði 25 til 30 talsins innan 5 til 7 ára.

Eins og áður sagði er Subway stærsta veitingahúsakeðja landsins með sölustaði í Reykjavík, Keflavík, Akureyri, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Selfossi, Akranesi og á Egilsstöðum

Nýr staður opnaður innan skamms

Skúli sagðist nýlega hafa verið að ganga frá samningi um nýjan veitingastað en hann sagðist einkum sjá fyrir sér að opna nýja staði úti á landi. Um er að ræða mikið net veitingastaða og sagði Skúli að það hefði reynst hagstæðast að sjá um dreyfingu sjálfir fyrir flesta staðina en áhersla er á að sama verð sé út um allt land.

Skúli sagði að reksturinn gengi vel og væri skuldlaus. ,,Það er því engin pressa á okkur að hækka verðið," sagði Skúli. Skúli segir það hafa komið sér á óvart þegar hann fór að skoða 15 ára gamla matseðla að verðið hafi ekki verið búið að hækka meira. „Þar munar mest um að við höfum kosið að velta ekki nýjustu hækkununum vegna gengishrunsins yfir á neytendur,“ segir Skúli.

Á einnig í rekstri í Finnlandi

Stofnandinn, Skúli Gunnar Sigfússon, kynntist Subway sem námsmaður i Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum segist hafa heillast af matnum. Hann opnaði fyrsta staðinn í Faxafeni þann 11. september árið 1994. Auk Subway þá á hann 2/3 í Sparrow veitingastöðunum en nú eru reknir tveir hér á landi. Sömuleiðis á hann og rekur fasteignafélag sem sér um húsnæði sem staðirnir eru í og fleiri fasteignir. Skúli keypti sig inn í rekstur Subway í Finnlandi fyrir nokkrum árum og rekur nú fimm staði þar ásamt meðeiganda sínum. í finnlandi eru nú 60 Subway veitingastaðir. Aðspurður sagði Skúli að farið yrði rólega í opna staði í Finnlandi en aftók ekki að slíkt væri á döfinni.

32 þúsund veitingastaðir

Alls eru hátt í 32.000 Subway staðir starfræktir í 91 landi og eru nokkrir nýir Subway staðir opnaðir á hverjum degi, einhvers staðar í heiminum.