Hallgrímur Bogason, athafnamaður og fyrrum oddviti Framsóknar í Grindavíkurbæ, og serbneskur viðskiptafélagi hans að nafni Novo Djonovic gætu átt yfir höfði sér tveggja til tólf ára fangelsisvist í Serbíu vegna viðskipta í gegnum íslenskt félag á árunum 2007 og 2008. Ákæruvaldið í Serbíu sækir málið og var ákæra á hendur þeim lögð fram fyrir þarlendum dómstólum í apríl á síðasta ári. Þá hafði það velkst um í kerfinu, til rannsóknar og á öðrum dómstigum, frá árinu 2009. Málið verður tekið fyrir hjá æðsta dómstóli landsins í næsta mánuði. Búast má við niðurstöðum nokkrum vikum síðar.

Málið tengist viðskiptum íslenska einkahlutafélagsins SCS Holding. Á árunum 2007 og 2008 keypti SCS serbneska félagið Tekig Invest sem átti um 1.500 fermetra húseign í miðbæ Belgrad, höfuðborg Serbíu. Viðskiptaáætlanir Íslendinganna sem tóku þátt gengu út á að selja fasteignina skömmu síðar og átti sú sala að skila mikilli ávöxtun. Ekkert varð þó af sölunni og eru þeir Hallgrímur og Djonovic sakaðir um að hafa stungið eigninni undan úr bókum SCS með gjafagerningi.

Viðskipti SCS hafa skilið eftir sig slóð dómsmála og illdeilna milli þeirra sem tóku þátt í verkefninu. Auk þess að fara fyrir hæstarétt í Serbíu í næsta mánuði hefur það verið rekið í einkamáli þar í landi. Í tveimur dómum sem fallið hafa hér heima hafa viðskiptafélagar Hallgríms og Daníels Þorsteinssonar, sem einnig var hluthafi í SCS, sakað þá um svik og pretti. Dómarnir tveir tengjast annars vegar lánveitingu Þorsteins Hjaltested til félagsins vegna annarra viðskipta SCS í Svartfjallalandi og hins vegar fjársvikamáli gegn Guðjóni Jónssyni. Viðskiptablaðið hefur undir höndum lánasamninga og ítarlegri gögn um viðskiptin í Serbíu og Svartfjallalandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.