Þrír sérfærðingar frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum munu kenna á þremur námskeiðum á haustmisseri Endurmenntunar Háskóla Íslands. Námskeiði eru í stjórnun, samningafærni og upplýsingatækni og hafa þau öll verið kennd við endurmenntunardeild Harvard.

Fram kemur í tilkynningu frá Endurmenntun Háskóla Íslands, að við þróun haustnámskeiða fyrir stjórnendur og sérfræðinga hafi verið ákveðið hjá Endurmenntun að útvíkka námsframboðið og leita að kennurum út fyrir landsteina.

Námskeiðin eru eftirfarandi:

Betri stjórnun

Margaret Andrews
Margaret Andrews
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Margaret Andrews kennir námskeiðið Managing Yourself and Leading Others sem verður haldið í lok september. Þetta námskeið er ætlað þeim sem vilja kryfja sinn eigin stjórnunarstíl og bæta hæfni sína til að stjórna, hafa áhrif og leiða einingu á árangursríkan hátt. Fjallað verður um tilfinningagreind, mismunandi stjórnunarstíla, menningu, stjórnskipulag, áhrifavald og sannfæringarkraft svo eitthvað sé nefnt. Andrews er aðstoðardeildarforseti á sviði stjórnunar við Harvard Extension sem hefur að auki langa reynslu af kennslu og stjórnun við bestu háskóla Bandaríkjanna.

Samningafærni

Diana Buttu
Diana Buttu
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á námskeiðinu Negotiations Skills: Strategies for Increased Effectiveness með Diana Buttu lögfræðingi og kennara við Harvard þjálfa þátttakendur samningaaðferðir sem nýtast við mismunandi aðstæður. Þátttakendur læra um samningatæknisstíla, úrslitakosti og hvenær á að ganga frá borði, mikilvægi góðra tengsla í samningaviðræðum, hæfni til að breyta samkeppni í samstarf, að kljást við tilfinningaþrungnar og óskynsamlegar aðstæður, að byggja upp samstarf og komast fram hjá mótherjum, falin sjónarmið og aðra sálfræðilega þætti í samningaviðræðum.

Buttu hefur m.a. verið lögfræðilegur ráðgjafi og tekið þátt í samningaviðræðum í deilu Ísraela og Palestínumanna auk þess sem hún er eftirsóttur álitsgjafi í bandarískum fjölmiðlum.

Hagnýtar leiðir í upplýsingatækni

Dr. Zoya Kinstler
Dr. Zoya Kinstler
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þátttakendur námskeiðsins Enterprise Information Technology: Strategies for Complex System Implementation fá fræðslu og kynningu á þeim tólum og tækjum sem auka skilning á upplýsingakerfum fyrirtækja og hvaða hagnýtar leiðir í upplýsingatækni má nota til úrlausna á viðskiptatengdum vandamálum. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um tölvuský, b2b kerfi, alþjóðlega upplýsingatækniþjónustu, flytjanleika og tækni samfélagsmiðla, samþættingu upplýsingakerfa og arkitektúr viðskiptaumhverfis, hagnýt dæmi um tækniverkefni stórfyrirtækja, inningarkerfi og þjónustustjórnun, notkun á ITIL (Information Technology Infrastructure Library).

Kennari er Dr. Zoya Kinstler er sérfræðingur í upplýsingatæknilausnum og kennir við Harvard og situr jafnframt í deildarráði við skólann. Hún hefur einnig 20 ára reynslu í verkefnum á sviði upplýsinga- og samskiptatækni í stórfyrirtækjum.