*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 2. ágúst 2018 14:14

Sérfræðingar frá Lufthansa hér á landi

Orðrómur er um að sérfræðingar á vegum Lufthansa hafi verið hér á landi til að kynna sér íslenskan flugrekstur.

Ritstjórn
epa

Ört hækkandi olíuverð er ein helsta ástæða þess að rekstur flugfélaga hefur þyngst undanfarin misseri. Þetta kemur fram á vef Túrista

Þessum versnandi aðstæðum í flugrekstri gætu fylgt breytingar að mati forsvarsfólks stórra evrópskra flugfélaga. Nýverið sagði til að mynda Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa Group, að sveiflur í olíuverði myndu ekki stöðva vöxt greinarinnar heldur ýta undir frekari sameiningar. „Á tímum hækkandi olíuverðs þá veikjast veiku félögin og þau sterkari styrkjast,” sagði Spohr í viðtalið við Süddeutsche.

Þessi ummæli þýska forstjórans eru meðal annars áhugaverð í ljósi þess að Lufthansa hefur stækkað umtalsvert síðustu ár og þá aðallega með því að kaupa flugfélög í nágrannalöndunum. Innan Lufthansa Group eru nú flugfélög eins og Austrian, Swiss, Eurowings og Brussel Airlines. Skandinavíska flugfélagið SAS hefur líka ósjaldan verið orðað við Lufthansa og í sumarbyrjun lýsti fyrrnefndur Spohr því yfir að Lufthansa myndi hugsanlega gera tilboð í norska flugfélagið Norwegian.

Forsvarsmenn þýska flugfélagsins leita því tækifæra þessi misserin og síðustu vikur hefur verið uppi orðrómur um að sérfræðingar á vegum Lufthansa hafi verið hér á landi til að kynna sér íslenskan flugrekstur. Heimildum Túrista ber þó ekki saman um hvort það muni vera Icelandair eða WOW air sem er til skoðunar.

Hjá Lufthansa vilja menn ekki gefa neitt út á þessar vangaveltur því í svari fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, segir að reglan sé að gefa ekkert út um slíkt. Í svari Lufthansa segir þó jafnframt að stjórn þýska flugfélagsins hafi lengi lagt áherslu á að samþjöppun í Evrópu muni halda áfram. „Að sjálfsögðu mun Lufthansa fylgjast náið með þróuninni og meta þau tækifæri sem greinast. Lufthansa hefur, og verður áfram, leiðandi í sameiningum og mun því halda áfram að ræða við flugfélög í Evrópu.”

Stikkorð: Lufthansa
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is