Fallist dómstólar á upptökukröfu embættis sérstaks saksóknara í svokölluðu Marple-máli gæti hún greitt upp beinan kostnað af embættinu frá upphafi. Um er að ræða kyrrsetta fjármuni Skúla Þorvaldssonar og félaga í hans eigu á bankareikningum og í eignasöfnum í Banque Havilland og Credit Suisse í Lúxemborg, sem voru kyrrsettir að beiðni embættisins þann 3. júní 2011. Andvirði þeirra er metið 46.749.907 evrur, sem er jafnvirði 7.014.823.545 króna samkvæmt gengi evru gagnvart íslenskri krónu þann 18. febrúar2015.

Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árin 2009-2013 og fjárlögum árin 2014 og 2015 er beinn kostnaður af rekstri embættis sérstaks saksóknara 5.520.297.157 krónur á föstu verðlagi miðað við janúar 2015. Mismunurinn er því 1.494.526.388 krónur, sem ríkissjóður gæti auðgast af rekstri embættisins. Er hér ekki gert ráð fyrir öðrum kostnaði af málarekstri, svo sem greiddum málskostnaði og kostnaði við rekstur dómstóla.

Gæti runnið til þrotabúsins

„Svo þarf líka að taka með í reikninginn að það kann að vera niðurstaðan að fjármunirnir tilheyri þrotabúinu [Kaupþingi, innsk. blm.]. Þetta er það fé sem fór út úr bankanum. Það er hins vegar ekkert öruggt í þeim efnum og við verðum bara að sjá hver framvindan verður,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .