Sérstakur saksóknari er borinn þungum sökum í greinargerð Sigurðar Einarssonar í sakamáli gegn honum vegna hinnar svokölluðu Al-Thani fléttu. Er embætti sérstaks saksóknara sagt hafa gefið Interpol rangar upplýsingar til að geta fengið gefna út svokallaða Red Notice eftirlýsingu, sem er alþjóðleg eftirlýsing. Segir í greinargerðinni að skilyrði fyrir því að geta fengið slíka eftirlýsingu þurfi hinn eftirlýsti annað hvort að hafa verið ákærður fyrir glæp eða sakfelldur. Hvorugt þessara skilyrða hafi verið uppfyllt í tilviki Sigurðar.

Þá segir að „ekki einungis voru skilyrði eftirlýsingar skv. reglum Interpol um Red Notice að engu höfð heldur virðist af gögnum sem Interpol hafi verið veittar rangar upplýsingar í því skyni að knýja fram eftirlýsingu á vef stofnunarinnar.“

Sigurður segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hvernig sérstakur saksóknari stóð að útgáfu handtökuskipunarinnar og birtingu hennar af Interpol sé stóralvarlegt mál. „Þeir lögmenn, innlendir sem erlendir sem hafa farið yfir málið fyrir mig eru sammála um að þau brot á réttarreglum við rannsókn málsins sem saksóknarinn viðhafði ættu að verða til þess að málinu sé vísað frá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.