Embætti sérstaks saksóknara flytur í nýtt húsnæði um miðjan mánuðinn. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að verið sé að stækka embættið og bæta aðstöðuna.

Fimmtán manns starfa hjá embættinu auk sérfræðinga sem koma í sér verkefni af og til.

Embættið er nú til húsa að Borgartúni 7b en verið er að flytja starfsemina á Laugaveg 166. „Húsnæðið sem við erum í núna gerir ráð fyrir tíu manns og erum við því búin að sprengja það utan af okkur," segir hann.

Dómsmálaráðherra auglýsti um daginn eftir þremur nýjum saksóknurum og rennur umsóknarfresturinn út 26. ágúst.