Fjármálaeftirlitið hefur vísað rannsókn á starfsemi fimm lífeyrissjóða til sérstaks saksóknara sem í dag hefur hafið rannsókn á meintum brotum sjóðanna á árinu 2008.

„Það er verið að skoða fjárfestingar þessara lífeyrissjóða umfram lagaheimildir á árinu 2008," segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við Viðskiptablaðið.

Lífeyrissjóðirnir sem um ræðir eru: Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Eimskipafélags Íslands, Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands, Eftirlaunasjóður FÍA og Kjölur lífeyrissjóður.

Þeir voru í rekstri og eignastýringu Landsbankans.

Ólafur Þór segir að í 36. grein laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé gert ráð fyrir ákveðinni áhættudreifingu fjárfesta. Greinin setji því fjárfestingum lífeyrissjóðanna lagalegar skorður. „Það er verið að kanna grun um að það hafi verið fjárfest út fyrir þessar heimildir á árinu 2008," segir hann.

Spurður hvort sjóðfélagar hafi orðið fyrir tapi vegna fjárfestinga umræddra sjóða segir hann að það verði allt að koma í ljós.

Þá segir hann að rannsóknin hjá embættinu sé á frumstigi. Of snemmt sé að segja til um það hvenær niðurstaða liggi fyrir.

Fjármálaráðherra skipar sjóðunum umsjónaraðila

Fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að fjármálaráðherra hafi að tillögu FME skipað sjóðunum umsjónaraðila vegna þessa máls.

Lára V. Júlíusdóttir er umsjónaraðili Íslenska lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs Eimskipafélags Íslands. Viðar Lúðvíksson er umsjónaraðili Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, Eftirlaunasjóðs FÍA og Kjalar lífeyrissjóðs.

Þau Lára og Viðar taka þar með við réttindum og skyldum stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðanna og gilda erindisbréf þeirra til 1. júlí nk. Fyrir þann tíma eiga þau að leggja fram tillögur um framtíð sjóðanna.

Daglegur rekstur helst óbreyttur

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu er sérstaklega tekið fram að daglegur rekstur sjóðanna haldist óbreyttur „og mun hagsmuna sjóðfélaga verða gætt í hvívetna," segir í tilkynningunni. „Á næstu dögum verður sjóðfélögum umræddra lífeyrissjóða sent bréf með frekari upplýsingum um stöðu mála og næstu skref."

Áréttað er í lok tilkynningarinnar að þau meintu brot sem um ræði varði starfsemi lífeyrissjóðanna á árinu 2008 „og eru því á engan hátt á ábyrgð yfirstjórnar Nýja Landsbanka Íslands."

Í tilkynningu frá Nýja Landsbankanum sem barst síðdegis segir að bankinn muni  tryggja gott samstarf við embættið „og vonast er til að niðurstaða fáist í málið sem fyrst."

(Fréttin var síðast uppfærð kl. 17).