Embætti sérstaks saksóknara fékk afhent um 150 kíló af skjölum auk rafrænna gagna um miðjan febrúar eftir að Hæstiréttur í Lúxemborg hafði úrskurðað að afhenda ætti gögnin. Samkvæmt málsskjölunum eru þetta gögn sem lagt var hald á hjá Banque Havilland, Pillar Securitisation, heima hjá og í bíl Magnúsar Guðmundssonar, þáverandi bankastjóra Banque Havilland.

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að þeir sem mótmæltu afhendingu gagna úr húsleitum sérstaks saksóknara í Banque Havilland og á fleiri stöðum eru Ólafur Ólafsson og fjögur félög í hans eigu, Hreiðar Már Sigurðsson (fyrrum forstjóra Kaupþings), Sigurður Einarsson (fyrrum starfandi stjórnarformann Kaupþings), Skúli Þorvaldsson, Egill Ágústsson og viðskiptafélagi hans, Einar Bjarna Sigurðsson.

Um er að ræða upplýsingar um hverjir eru raunverulegir eigendur félaga og fyrirtækja sem voru í viðskiptum við Banque Havilland, áður Kaupþing í Lúxemborg, og eru til rannsóknar hjá embættinu. Auk þess er þar að finna tölvupósta, lánasamninga og bankareikninga, upplýsingar um viðskipti félaga sem einkabankaþjónusta bankans sá um, önnur fjárhagsleg samskipti og ýmislegt fleira sem snertir rannsóknina. Þegar embættið fékk gögnin loks afhent hafði liðið rúmt ár frá því að húsleitirnar fóru fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð. Viðskiptablaðið er selt í lausasölu í þessum verslunum.