Erlend kvikmyndafyrirtæki hafa sýnt því áhuga að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabankans til að fjárfesta í kvikmyndaverkefnum hér á landi. Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá True North, segir í samtali við Fréttablaðið að binditíminn sem leið Seðlabankans felur í sér standi þó í fyrirtækjunum og talar fyrir sérsniðinni leið fyrir kvikmyndafjárfestingu.

„Mín hugmynd er sú að erlendar bíómyndir fengju að koma með aflandskrónur inn í hagkerfið á hagstæðu gengi gegn því að skuldbinda sig til að gera kannski tvær myndir á Íslandi yfir til dæmis þriggja ára tímabil,“ segir Leifur.

„Í fjárfestingarleiðinni er fimm ára binditími. Það stendur í kvikmyndafyrirtækjum. Ef þessi binditími yrði styttur í tilfelli þeirra þá er ég þess fullviss að þau myndu sýna þessu mikinn áhuga.“