Kjölur fjárfestingarfélag og aðrir tæknifjárfestar hafa fjárfest fyrir 270 m.kr . í íslenska tölvuleikjaframleiðandanum Solid Clouds sem er að framleiða herkænskuleikinn Starborne sem gerist í geimnum og er spilaður í rauntíma af þúsundum spilara. Solid Clouds var auk þess að fá vaxtarstyrk til tveggja ára frá Tækniþróunarsjóði.

„Við erum ánægðir með að ljúka þessari fjármögnun og því að hafa fengið til liðs við okkur jafn öflugan og reyndan fjárfesti eins og Kjöl. Það er líka mikill styrkur og heiður að styrk Tækniþróunarsjóðs. Þessir fjármunir verða nýttir til að markaðssetja Starborne erlendis og til framleiðslu á snjallsímaútgáfu af leiknum,“ segir Stefán Gunnarsson framkvæmdastjóri Solid Clouds.

„Við höfum lengi haft augastað á Solid Clouds þar sem þeir eru framleiða byltingarkenndan tölvuleik sem lofar mjög góðu og við erum spenntir fyrir því að miðla til þeirra okkar reynslu af uppbyggingu tæknifyrirtækja,“ segir Guðmundur Ingi Jónsson framkvæmdastjóri hjá Kili fjárfestingarfélagi en hann hefur tekið sæti í stjórn Solid Clouds.