Fjármálaeftirlitið (FME) setti nýverið reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána. Samkvæmt nýju reglunum má veðsetningarhlutfall að hámarki vera 85 prósent af markaðsverði fasteignar. Þó tekur Fjármálaeftirlitið sérstaklega fram að þegar um er að ræða fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign verði heimilt að lána allt að 90 prósent af markaðsverði. Hagfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja á ekki von á því að nýju reglurnar verði íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtæki eða neytendur.

Reglurnar eru byggðar á 25. grein laga um fasteignalán til neytenda sem tóku gildi í apr­ íl á þessu ári. Þar kveður á um að FME geti, að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að ákveða með reglusetningu hámark veð­ setningarhlutfalls fasteignalána. Í rökstuðningi FME segir meðal annars að tilgangur reglnanna sé að varðveita fjármálastöðugleika og að „treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart mögulegum viðsnúningi í fasteignaverði, nú þegar vaxandi spennu gætir á lánamarkaði.“

„Ágætis mál og skynsamlegt“

Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF), segir í samtali við Viðskiptablaðið að SFF sé sátt við þessa heimild sem FME fékk til að setja hámark á leyfilegt veðsetningarhlutfall. „Heimildin kom með lögum sem tóku gildi núna 1. apríl um fasteignalán til einstaklinga. Sú löggjöf var undirbúin í nefnd og við vorum með fulltrúa þar. Við gerum enga athugasemd um að sú heimild sé sett,“ segir Yngvi Örn.

Hann segir að fordæmi sé fyrir því að slík lög hafi verið sett á í nágrannalöndum okkar og jafnvel verið við lýði í langan tíma. „Í sumum nágrannalanda okkar hefur slík heimild verið mjög lengi, eins og til að mynda í Danmörku. Mjög mörg lönd í Evrópu hafa tekið þetta upp eftir fjármálahrunið 2008. Stór þáttur í hruninu sneri að því að menn gengu of langt í lánveitingum til fasteignavið­ skipta – og þá sérstaklega til íbúðaviðskipta,“ bætir hann við.

Yngvi Örn segir enn fremur að SFFhafi í raun og veru ekki gert athugasemd við þessa ákvörðun á þessum tímapunkti. Hann bendir á að þetta séu sömu hámörk og fjármálafyrirtæki hefðu miðað við fyrir. „Ég á ekki von á því að þetta verði íþyngjandi fyrir markaðinn – hvorki fjármálafyrirtækin né lánveitendurna – þetta er í raun og veru ágætis mál og skynsamlegt,“ tekur hann fram. Yngvi Örn bendir á að FME stígi nokkuð varlega inn í þetta. „Þessi hámörk eru ekki sett fyrir neðan það sem tíðkast almennt á markaðnum. Það endurspeglar það að þrátt fyrir að það séu einhver hættumerki á fasteignamarkaðnum eru þau ekki svo skýr að það þurfi að beita hörðu,“ segir hann.

Efast um að bankar hafi slakað á skilyrðum

„Það eina sem kemur okkur á óvart í þessari ákvörðun má finna í rökstuðningnum. FME fullyrðir þar að það séu vísbendingar um að bankar og aðrir lánveitendur séu að slaka á sínum lánaskilyrðum, og að það birtist í að veðsetningarhlutföll hafi hækkað um 4-5 prósentustig milli ára. Við höfum ekki upplýsingar um það,“ segir Yngvi Örn. Hann segir að þvert á móti séu upplýsingar SFF á þann veg að bankar hafi verið að herða sínar reglur. Í tilkynningu FME segir að gögn eftirlitsins sýni að lánastofnanir hafi slakað á lánaskilyrðum að undanförnu samhliða aukinni samkeppni á fasteignalánamarkaði.

Yngvi Örn telur það líklegt að hækkun veðsetningarhlutfalla stafi af því að það séu fleiri fyrstu íbúðakaupendur en í fyrra, þó að hann segi erfitt að fullyrða um það. „Lántökur þeirra sem hlutfall af fyrstu fasteign eru miklu hærri en þeirra sem eru að kaupa í annað og þriðja sinn og svo framvegis. Margir sem kaupa í fyrsta sinn nýta sér það að fara upp í hámarkið. Ég efast um að lánveitendur hafi slakað á skilyrðum, allavega ekki bankarnir,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .