Seðlabanki Íslands birti í dag reglur um breytingu á reglum um lausafjárhlutfall lánastofnana. Breytingin felur í sér að innleitt hefur verið 50% lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum. Þetta kemur fram í frétt á vef bankans.

Samkvæmt núgildandi reglum þarf lausafjárhlutfall lánastofnunar vera að lágmarki 100% í öllum gjaldmiðlum samtals en með breytingunni verður gerð krafa um að lánastofnanir uppfylli einnig að lágmarki 50% lausafjárhlutfall í íslenskum krónum.

Á vef bankans kemur fram að lausafjárreglunum sé ætlað að tryggja að lánastofnun eigi ávallt lausar eignir til að standa skil á fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili. Þar sem efnahagsreikningar lánastofnana og lausafjáráhætta þeirra er að mestu leyti í íslenskum krónum telur Seðlabankinn eðlilegt að krafa sé gerð um lausafjárforða í krónum.

Mikilvægt sé að lánastofnanir búi yfir lausu fé í krónum sem gerir þeim kleift að standa skil á eðlilegu útflæði og mæta sveiflum milli daga og vikna, svo og standa skil á stærri innlánum án vandkvæða. Við mat á leyfilegu lágmarks lausafjárhlutfalli í íslenskum krónum lítur Seðlabankinn til þess að fjölbreyttari hágæða lausafjáreignir er að finna í erlendum eignum. Þá eru innlán í Seðlabankanum vegna bindiskyldu ekki talin til lausra eigna í skilningi lausafjárreglna.

Þá kemur einnig fram að lausafjárhlutfall lánastofnana sé nokkuð sveiflukennt og því verði að gera ráð fyrir því að þær þurfi að jafnaði að hafa lausafjárhlutfall í íslenskum krónum hærra en lágmark er samkvæmt reglunum. Með hliðsjón af því telur Seðlabankinn nægjanlegt að gera kröfu um 50% lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum.