Góðgerðafélagið The Bill and Melinda Gates Foundation, sem líkt og nafnið gefur til kynna er í eigu hjónanna Bill og Melindu Gates, hefur heitið því að leggja til 250 milljónir dala til viðbótar í þróun á hagkvæmari meðferð og bóluefni gegn COVID-19 faraldrinum. Reuters greinir frá.

Síðasta framlag félagsins til baráttunar gegn COVID-19, sem lagt var fram í nóvember, nam 70 milljónum dala og varð þá hæsta einstaka framlag félagsins til málefnisins. Í kjölfar fyrrnefnds 250 milljóna dala framlags hefur góðgerðafélagið lagt fram 1,75 milljarða dala til baráttunnar gegn veirunni.

„Hvort heimurinn verði betri fyrir alla ræðst af framtaki leiðtoga heimsins og skuldbindingu þeirra til að koma skimunum, meðferðum og bólefnum til þeirra sem þurfa á því að halda," er haft eftir Melindu Gates í tilkynningu góðgerðafélagsins. Fjárframlag félagsins mun að auki vera nýttur til að koma nauðsynlegum tólum til skimunar og bóluefnum til fátækari ríkja.