*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 24. apríl 2019 15:49

Setja upp tímabundið sendiráð á Íslandi

Holland mun setja upp tímabundið sendiráð í Reykjavík í næstu viku, til að leggja áherslu á góð tengsl við Ísland.

Ritstjórn
epa

Sendiráð Hollands í Osló er í forsvari gagnvart Íslandi ásamt aðalkjörræðismanni í Reykjavík. Holland mun setja upp tímabundið sendiráð í Reykjavík frá 27. apríl til 2. maí 2019 til að leggja áherslu á góð tengsl við Ísland og til að sýna hinar mörgu hliðar á sambandi Íslands og Hollands. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Á meðan tímabundna sendiráðið er opið mun Holland standa fyrir margvíslegum viðburðum sem sýna hin fjölbreyttu tengsl á milli Hollands og Íslands.

Tvíhliða viðræðufundir verða haldnir með stefnumótendum um fjölda viðfangsefna eins og stefnu í utanríkis- og öryggismálum, tengsl við Evrópu, jafnrétti kynjanna og mannréttindi. Málstofa með áherslu á sjálfbæra nýsköpun og hringrásarhagkerfið verður haldin í samstarfi við Reykjavíkurborg.  

Námskeið með knattspyrnuhetju

Hollenska knattspyrnusambandið KNVB mun standa fyrir námskeiði og málstofu með KSÍ sem er hluti af verkefninu „KNVB World Coaches" með knattspyrnuhetjunni Johan Neeskens.

Sendiráðið mun skipuleggja tvo tónlistarviðburði sem verða opnir almenningi: djassaðan listgjörning með Udo Prinsen mánudaginn 29. apríl kl. 19:30 og tónleika með hollenskum nemendum við Konunglega listaskólann sem eru innblásnir af íslenskri goðafræði, með aðstoð frá Listaháskóla Íslands, þann 2. maí kl. 19:30. Báðir tónleikarnir verða haldnir í Iðnó, Vonarstræti 3, Reykjavík.

Tímabundna sendiráðið opnar skrifstofu sína fyrir ræðismannaþjónustu við hollenska ríkisborgara og veitir þeim færi á að sækja um hollensk ferðaskilríki í Reykjavík.

Íslensk fyrirtæki sem hafa áhuga á að stunda viðskipti í Hollandi fá tækifæri til þess að ræða við viðskiptasvið.

Stikkorð: Ísland Holland