Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Pálmi Haraldsson veitti flugfélagi sínu Astraeus hluthafalán í september síðastliðnum. Skarphéðinn Berg Steinarson, stjórnarmaður í félaginu og núverandi forstjóri Iceland Express, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vildi ekki gefa upp um hversu háa upphæð er að ræða. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins lagði Pálmi Iceland Express nýlega til um 500 milljónir króna sem fóru rakleiðis til Astraeus. Viðskiptablaðinu er ekki kunnugt um hvort Skarphéðinn á við þessa upphæð þegar hann staðfestir lánveitingu Pálma til Astraeus.

Astraeus á og rekur flugvélar Iceland Express. Bæði félögin eru í eigu Pálma og eru því nátengd. Eini lánardrottinn Express er Astraeus, en síðarnefnda félagið er skráð í Bretlandi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Express ekki getað staðið í skilum á öllum greiðslum til Astraeus á settum tíma.

Skarphéðinn Berg vildi lítið tjá sig um lánveitinguna, en sagði hana veitta til að styrkja lausafjárstöðu félagsins. Ekki náðist í Pálma við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Pálmi býr erlendis og er lögheimili hans skráð í Lúxemborg. Á síðustu vikum hefur hann þó haldið mikið til á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.