*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 16. ágúst 2017 15:08

Settu 433 milljónir í United Silicon

Festa lífeyrissjóður og Frjálsi lífeyrissjóðurinn lögðu alls 433 milljónir króna til hlutafjáraukningu United Silicon í apríl.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Festa lífeyrissjóður og Frjálsi lífeyrissjóðurinn lögðu alls 433 milljónir króna til hlutafjáraukningu United Silicon í apríl að því er kemur fram í frétt Mbl.is um málið. Þó liggur það ekki fyrir hversu umfangsmikil aðkoma Arion banka fyrr en að bankinn gefur út hálfsársuppgjör sem birt verður í næstu viku. 

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í vikunni veitti héraðsdómur Reykjaness stjórn United Silicon heimild til greiðslustöðvunar sem miðar að því að ná bindandi nauðasamningum við lánadrottna. Ástæðan fyrir því eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju félagsins í Helguvík vegna síendurtekinna bilana sem hafa valdið miklu tjóni.

United Silicon stóð fyrir hlutafjáraukningu í apríl sem að Arion banki, Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna tóku þátt í. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagi til 397 milljónir króna og Festa 36 milljónir króna til hlutafjáraukningarinnar. 

Í frétt RÚV frá því í maí kemur fram að Frjálsi hafi eignast 5,6% í United Silicon og Festa 3,7% og eftirlaunasjóður FÍA ríflega hálfa prósentu. Einnig greindi Kjarninn frá því nýverið að Arion banki ætti 16% í United Silicon.