Sex myndhöfundar, þrjár konur og þrír karlar, keppa að þessu sinni um heiðursverðlaun Myndstefs, myndhöfundasjóðs Íslands, sem forseti Íslands úthlutar. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaununum er úthlutað en þau eru veitt fyrir afburða framlag til myndlistar, framúrskarandi myndverk eða sýningu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Myndstefi.

Heiðursverðlaunum Myndstefs nema samtals einni milljón króna. Landsbanki Íslands er fjárhagslegur bakhjarl heiðursverðlaunanna og leggur til helming verðlaunafjárins en hinn helmingurinn kemur úr sjóðum Myndstefs.

Myndhöfundarnir sem tilnefndir eru að þessu sinni eru:

Halldór Baldursson teiknari fyrir liprar og skemmtilegar myndskreytingar á barnabókum en þó fyrst og fremst fyrir skopmyndirnar sem birst hafa reglulega í Viðskiptablaðinu og Blaðinu, nú 24 stundum, og hafa öðlast traustan sess í hjörtum lesenda fyrir frumleika og hárbeittan húmor.

Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður fyrir einstakt og hrífandi framlag til íslenskrar myndlistar en hluta þess gefur nú að líta í Listasafni Reykjavíkur á yfirlitssýningu sem upphaflega var sett upp í Serpentine Gallery í London. Verk Hreins eru skínandi einföld og tær, full af ljóðrænum vísunum og heimspekilegum vangaveltum.

Ilmur María Stefánsdóttir myndlistarmaður og leikmyndahöfundur fyrir afar sérstæð og hugvitsamleg verk sem oftar en ekki ramba á mörkum myndlistar og hönnunar og einkennast af húmor og óvæntum tengingum. Sérstaklega er horft til leikmyndar hennar við söngleikinn Leg sem nú er sýndur í Þjóðleikhúsinu en Ilmur hefur nýlega haslað sér völl innan leikhúsheimsins.

Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari fyrir listræna og tilgerðarlausa nálgun við viðfangsefni sitt. Katrín hélt m.a. tvær einkasýningar í Reykjavík á síðasta ári, aðra í Þjóðminjasafni Íslands, hina í Listasafni ASÍ. Myndir hennar búa yfir dulúð og spennu ævintýrisins þó myndefnið geti virst ofurhversdagslegt á yfirborðinu.

Ólöf Nordal myndlistarmaður fyrir tvö afbragðsgóð verk í almenningsrými sem eiga það sammerkt að byggjast á einfaldri og skýrri hugmynd, hafa víða táknræna skírskotun og vera afar aðgengileg fyrir áhorfandann. Um er að ræða altaristöflu í Ísafjarðarkirkju og minningarreit um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og upphaf kvennabaráttu á Íslandi.

Pálmar Kristmundsson arkitekt fyrir skýrt hugsaðar og fallega mótaðar byggingar í gegnum tíðina. Þó verkin séu ólík, skín næmi og frumleiki ávallt í gegn í hugvitsamlegum lausnum, óvenjulegri efnisnotkun og öguðum hlutföllum. Byggingarnar einkennast af ákveðnum hreinleika og skynsemi og eru góð umgjörð um mannlífið sem í þeim þrífst. Meðal verka hans má nefna: Sambýli í Hveragerði, Höfðatorg, KFC í Keflavík aðstöðu Þróttar og Ármanns í Laugardal og sendiráð Íslands í Berlín.

Kallað var eftir ábendingum frá aðildarfélögum Myndstefs, sem og frá einstökum félagsmönnum, og úr þeim hópi voru sexmenningarnir valdir af þriggja manna dómnefnd. Hana skipuðu Áslaug Thorlacius myndlistarmaður, Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbanka Íslands, og Margrét Harðardóttir arkitekt.

Hver sexmenninganna hreppir hnossið kemur í ljós á fimmtudaginn kemur, 15. nóvember, þegar forseti Íslands afhendir heiðursverðlaun Myndstefs 2007 við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands.

Innan vébanda Myndstefs eru á fjórtánda hundrað manns í sex aðildarfélögum: Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Ljósmyndarafélagi Íslands, Félagi íslenskra teiknara, Félagi grafískra teiknara, Arkitektafélagi Íslands og Félagi leikmynda- og búningahöfunda. Einnig eiga aðild að Myndstefi allmargir erfingjar að myndhöfundarétti.