*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Erlent 19. febrúar 2019 14:04

Sextán fylki kæra neyðarástand Trumps

Sextán fylki Bandaríkjanna hafa kært neyðarástandsyfirlýsingu Donalds Trump til alríkisdómstóla.

Ritstjórn
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir neyðarástandi vegna ástandsins við landamæri landsins við Mexíkó á föstudag.
epa

Sextán fylki Bandaríkjanna hafa biðlað til alríkisdómstóla að ógilda neyðarástandið sem Trump lýsti yfir á föstudag til að tryggja sér fjármögnun fyrir hinn umdeilda landamæramúr. Financial Times segir frá.

Vilja fylkin sextán – sem meðal annars telja Kaliforníufylki, New York, Maryland og Virginíu – meina að yfirlýsing neyðarástands til að reisa múrinn sé brot á stjórnarskránni. Forsetinn geti ekki tekið sér það vald að færa til fjármuni, þar sem fjárveitingavaldið sé hjá þinginu. Þau lögðu fram formlega stefnu vegna málsins í gær.

Dómsmálaráðherrar fylkjanna fullyrtu að Trump hafi með yfirlýsingunni farið gegn vilja þingsins og „notað tilbúning um ‚krísu‘ vegna ólöglegra innflytjenda sem yfirskyn“ til að taka til sín fjármagn sem ætlað var til hernaðaruppbyggingar, baráttunnar gegn eiturlyfjum og annarrar löggæslu.

Forsaga málsins er sú að undir lok síðasta árs krafðist Trump þess að þingið samþykkti fjárveitingu fyrir veggnum upp á 5,7 milljarða dollara – tæpa 700 milljarða króna – og neitaði að samþykkja fjárlög sem ekki innihéldu slíka fjárveitingu. Úr varð lengsta stöðvun starfsemi ríkisstofnana í Bandarískri sögu, samtals 35 dagar, sem endaði með samþykki tímabundinna fjárlaga, sem ekki innihéldu fjármagn fyrir múrinn.

Trump samþykkti síðan á föstudag lengri fjárlög – sem innihéldu ekki fjármagn fyrir múrinn sem slíkan, en þó 1,37 milljarða dollara til almennrar landamæragæslu – til að afstýra annarri stöðvun, en samhliða því lýsti hann yfir neyðarástandinu.

Stikkorð: Trump Donald