Tveir af stærstu fjárfestingabönkum heims gáfu út afkomuviðvörun í gær vegna markaðsaðstæðna er mynduðust í kjölfar hruns á markaði með bandarísk undirmálslán í sumar. Forráðamenn Citigroup gera ráð fyrir að tekjur bankans á þriðja ársfjórðungi muni vera sextíu prósentum lægri en á sama tíma í fyrra. Afkomuviðvörun Citigroup kom sex tímum eftir að svissneski fjármálarisinn UBS tilkynnti um tap á rekstrinum á þriðja ársfjórðungi vegna afskrifta á skuldum, að verðmæti 3,42 milljarða Bandaríkjadala, af sömu ástæðu.

Fram kom í tilkynningu Citigroup að bankinn þurfi að afskrifa lán að verðmæti 1,4 milljarða dala og færa til bókar tap að verðmæti 1,3 milljarða, vegna gengisþróunar á skuldabréfavafningum sem innihalda undirmálslán. Jafnframt kom fram að bankinn hefði tapað um 600 milljónum dala á viðskiptum á skuldabréfamarkaði vegna markaðstitrings. Tilkynningin vakti töluverða athygli enda hafði Chuck Prince, stjórnarformaður og forstjóri Citigroup, vísað á bug öllum áhyggjum af að uppkaupahrinan, sem hefur verið knúin áfram af ódýru lánsfé, væri að renna sitt skeið á enda. Í viðtali við breska blaðið Financial Times í júlí líkti hann flæði fjármagns við tónlist og sagði hann bankann vera dansandi, þar sem tónlistin væri enn dunandi.

Í afkomuviðvöruninni er haft eftir Prince að rekstraraðstæður hafi verið "óeðlilegar" á þriðja ársfjórðungi en reksturinn verið eðlilegri í september. Þrátt fyrir að hann slái þann varnagla að ekki sé hægt að spá fyrir um þróun markaðarins, gera forráðamenn bankans ráð fyrir að rekstrarumhverfið verði á ný "eðlilegt" hvað tekjur varðar á fjórða ársfjórðungi. Uppgjör Citigroup verður birt fimmtánda október.

Jafnframt þessum fréttum tilkynnti svissneski bankinn UBS að lausafjárþurrðin í sumar hefði neikvæð áhrif á afkomuna á þriðja fjórðungi. Í afkomuviðvörun UBS kom fram að afskrifa þurfti um 3,4 milljarða dala vegna þróunarinnar á fjórðungnum og að umtalsvert tap verði á rekstrinum á tímabilinu eða um 600 til 800 milljónir svissneskra franka. Þetta er í fyrsta skipti sem tap er á rekstri bankans á einum ársfjórðungi síðan árið 1998, en þá þurftu forráðamenn bankans að afskrifa eign sína í vogunarsjóðnum Long Term Capital Management en sá sjóður hrundi vegna markaðshræringa. Samfara þessu tilkynnti UBS um breytingar á yfirstjórn bankans og að til stæði að segja upp um 1500 manns.